ÖRÆFASKÓLINN
Náttúruvernd og Fjallamennska
Líf í takt við náttúru. Við jökla er ótalmargt hægt að læra um loftslagsbreytingar en það má segja að Öræfin séu hin fullkomna, lifandi kennslustofa loftslags- og umhverfisbreytinga. Öræfasveitin er stórbrotin, fögur og á sér ekki hliðstæðu. Hún býður upp á gott aðgengi fyrir alls kyns fjallabrölt á við jöklagöngur, klettaklifur, tindagöngur og ótal augnablik að fanga í fegurð og næringu náttúruaflanna.
Námskeiðið býður þátttakendum upp á að ögra sjálfum sér í stórbrotinni náttúru Öræfa og að víkka sjóndeildarhringinn án þess að fara út fyrir landsteinana. Þetta er tækifæri fyrir fólk úr öllum áttum til þess að upplifa einhverjar mestu náttúruperlur landsins.
NÁMSKEIÐIN
Draumadagar í Öræfum
Öræfi eru hin fullkomna, lifandi kennslustofa loftslags- og umhverfisbreytinga með gríðarlegum möguleikum á fjölbreyttri útivist. Heimurinn breytist nú á ógnarhraða af völdum loftslagsbreytinga og eru Öræfi þar engin undantekning. Svæðið dregur ferðafólk að sér langt að ár hvert. Aðdráttarafl Öræfa er kannski augljóst en það má vera að fólk sækist eftir dramatísku landslagi jöklanna og jökulsorfinna eldstöðva. Í Öræfum er auðvelt að nota umhverfið og náttúruna sem kennslustofu enda er landslag og vistkerfi þar fjölbreytt. Þar að auki hefur svæðið upplifað stórfelldar náttúrufarsbreytingar í gegnum aldirnar vegna eldvirkni, framskriðs jökla, jökulhlaupa og nú helst loftslagsbreytinga.
Öræfaskólinn býður upp á allt það besta sem Öræfin hafa fram að færa. Almenn námskeið eru haldin 1-5. júlí og 5-8. ágúst.
Einnig er boðið upp á sérsniðin hópanámskeið löguð að þörfum hvers og eins. Göngur á fáfarin fjöll, þverun skriðjökla, kletta- og ísklifur og samvera í öllum veðrum eru hluti af námskeiðinu. Öræfaskólinn leggur áherslu á að brúa bilið á milli útivistar og náttúruvitundar og vekja athygli á þeim breytingum sem eru að eiga sér stað allt um kring.
UM OKKUR
Fjallakonurnar, Íris, Erla og Svanhvít, standa á bak við Öræfaskólann. Sem jöklaleiðsögu- og vísindamenn telja þær mikilvægt að til sé staður þar sem fólk getur farið á fjöll og jökla, lært um náttúruna og óumflýjanlegar breytingar á henni.
Erla hefur stundað útivist, er skíðakona og hefur ferðast um fjöll og jökla frá barnsaldri. Hún er jöklajarðfræðingur og ver tíma sínum helst á fjöllum og í grennd við þá. Íris ólst upp í þjóðgarðinum í Skaftafelli og hefur gengið á fjöll og jökla frá unga aldri. Hún er náttúru- og umhverfisfræðingur frá LbhÍ og nýtur þess að klífa kletta, ísfossa og jökla hvenær sem færi gefst. Svanhvít ólst upp í Svínafelli og hefur lifað og hrærst í faðmi Öræfajökuls mest allt sitt líf. Hún er fjallageit og hefur lengi stundað fjölbreytta útivist á við fjallgöngur, fjallaskíði, klifur, fjallahjól og hestamennsku.
Erla, Svanhvít og Íris hafa saman unnið við ýmsa leiðsögn, kennslu, landvörslu og rannsóknir síðustu 8 árin og hafa m.a. leiðsagt jöklaferðir, fjallaskíðaferðir, kayakferðir og tindaferðir ásamt því að vinna sem fjallamennskukennarar í Fjallamennskunámi Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu. Út frá þessum umhverfistengdu áhugamálum og menntun hafa þær brennandi áhuga á því að upplýsa fólk um náttúruvernd, umhverfismál og náttúruvísindi.
HAFÐU SAMBAND
Ef þið hafið frekari spurningar varðandi námskeiðin, sérferðir eða annað, endilega sendið okkur skeyti og við svörum eins fljótt og auðið er!
Svínafelli, 785 Öræfum, Ísland
oraefaskolinn@gmail.com
+354 659-4015