UM ÖRÆFASKÓLANN
Markmið Öræfaskólans er að færa umhverfis- og loftslagsfræðslu til fólks á öllum ásamt því að kynna íslenska náttúru í gegnum spennandi fjalla- og ævintýraferðamennsku. Náttúrufarsþróun, fjallamennska, náttúruvernd og sjálfbær lífstíll í takt við náttúru eru okkur kær og viljum við hvetja til upplýstrar umræðu og gagnrýnnar hugsunar með náttúruna að leiðarljósi. Allt í gegnum spennandi útiveru í fjalllendi Öræfa sem hafa lengi verið vagga íslenskrar fjallamennsku. Svæðið hefur að geyma einhverja stórbrotnustu náttúrufegurð sem fyrirfinnst á Íslandi. Fullkomið samspil eldfjalla og jökla setur svip á landslagið og hagstæð veðurskilyrði gera Öræfin jafnframt græn og gróin inn á milli hrjóstrugra sanda, jökla og fjallstoppa. Jöklar verða fyrir miklum áhrifum þegar kemur að loftslagsbreytingum og spila þeir aðalhlutverk á þessu námskeiði. Vatnajökulsþjóðgarður komst nýlega inn á heimsminjaskrá sameinuðu þjóðanna en það er mikilvægt skref í umhverfisvernd á Íslandi og enn aukið tilefni fyrir ferðalanga til að njóta svæðisins. Þarna eru ótal tækifæri til hinnar ýmsu útivistar og að mörgu leyti fáir betri staðir á landinu til þess að læra um íslenska náttúru og umhverfisbreytingar á nútíma í gegnum fjallamennsku.
ERLA GUÐNÝ HELGADÓTTIR
Jarðfræðingur og leiðsögumaður
Erla hefur stundað útivist, keppt á skíðum og ferðast um fjöll og jökla frá barnsaldri. Hún er menntaður jöklajarðfræðingur og starfar við rannsóknir hjá Náttúrustofu Suðausturlands. Á fjöllum líður Erlu best og þá helst á fjallaskíðum en hún nýtur þess að læra og deila þekkingu í fjallamennsku, skíðamennsku, náttúruvernd og náttúruvísindum.
ÍRIS RAGNARSDÓTTIR PEDERSEN
Fjallamennskukennari og leiðsögumaður
Íris ólst upp í þjóðgarðinum í Skaftafelli og hefur gengið á fjöll og jökla frá unga aldri. Hún er útskrifaður náttúru- og umhverfisfræðingur frá LbhÍ og nýtur þess að deila úr viskubrunni sínum um náttúruvernd og náttúrvísindi. Hún rekur fjallaleiðsögufyrirtækið Tindaborg í Öræfum ásamt því að kenna fjallamennsku við FAS.
SVANHVÍT HELGA JÓHANNSDÓTTIR
Leiðsögumaður og nútímafræðingur
Svanhvít ólst upp í Svínafelli og hefur lifað og hrærst í faðmi Öræfajökuls mest allt sitt líf. Hún er fjallageit og hefur lengi stundað fjölbreytta útivist á við fjallgöngur, fjallaskíði, klifur, fjallahjól og hestamennsku. Hún vinnur sem landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði og sem leiðsögumaður. Svanhvít er með bakkalárgráðu í Nútímafræði og er ljóðskáld og listamaður.