top of page
Search

Vorboðinn


Vorið hér í Öræfum hefur verið mjög þurrt, það rigndi ekki í hartnær mánuð. En nú sit ég hér heima í stofu, heyri í rigningunni, horfi á grasið grænka, víðirinn laufgast og hlusta á fuglana syngja og verja sitt óðal. Á kvöldin heyrum við tófuna í fjallinu gagga og ungar hrafnsins væla í hreiðrinu. Það er ómetanlegt að vera svona nálægt náttúrunni og sjá hana lifna við eftir langan vetur.

Ég þarf alltaf að minna sjálfa mig á að sumarið byrjar í maí, því oftar en ekki verð ég leið þegar kemur að sumarsólstöðum því þá líður mér eins og sumarið sé á enda, þar sem að þá dimmir örlítið með hverjum deginum. En það er að sjálfsögðu algjör þvæla.

Best er auðvitað að nýta sumarið sem best með útiveru, mér finnst ég oftast komast að því að veðrið yfir sumarið hafi bara verið þokkalegt mest allan tíman þar sem að ég gat verið úti nærri allt sumarið, alla góðu dagana og líka þá slæmu. Stundum er eiginlega nauðsynlegt að fá einn rigningadag svo að maður hafi allavega ástæðu til að vera inni að gera ekki neitt.

Ég var alin upp þannig að ef að það var gott veður áttum við systurnar að fara út og finna okkur eitthvað að gera. Það var ekki nema á góðum rigningadegi sem við máttum sitja inni um hábjartan dag og horfa á sjónvarp. Ég er ekkert nema þakklát fyrir það í dag.

Ég vona að sumarið verði sem flestum gott og að við getum ferast um fallega landið okkar. Mig langar til að hvetja fólk til að halda upp á hálendi eða skoða staði á láglendinu sem það hefur ekki komið á áður. Við Árni ætlum sjálf m.a. að keyra Kjöl og kíkja í Kerlingafjöll og fara á Norðurfjörð að klifra.


Með kveðju úr Öræfum,

Íris Ragnarsdóttir




8 views0 comments
Post: Blog2_Post
bottom of page